Reglur

1. Markmið

Markmið Evrópsku tölfræðikeppninnar eru:

  • að hvetja nemendur til þess að vera áhugasamir og forvitnir um tölfræði.

  • að hvetja kennara til nýsköpunar í efnisvali við tölfræðikennslu með notkun á raungögnum.

  • að hvetja kennara til þess að nota tölfræði sem hagnýtt verkfæri í kennslu til þess að skapa skilning á upplýsingum.

  • að sýna nemendum og kennurum hvaða hlutverki tölfræði gegnir á ólíkum sviðum samfélagsins.

  • að sýna nemendum að hægt sé að læra tölfræði í háskóla.

að hvetja til samvinnu nemenda til þess að ná sameiginlegum markmiðum.

2. Þátttaka

Þátttaka í undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar stendur öllum nemendum á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum, sem stunda nám við opinberlega viðurkenndar menntastofnanir, til boða.

Nemendur skulu skipa tveggja til þriggja manna lið. Miðað er við að allir liðsmenn tilheyri sama skóla og aldursflokki og að kennari frá skólanum hafi umsjón með þátttöku þeirra. Hvorki er hámark á fjölda skráðra liða frá hverjum skóla né fjölda liða í umsjá sama kennara.

Nemendum er óheimilt að taka þátt í fleiri en einu liði.

Þátttaka hvers liðs fer fram í einum af eftirfarandi tveimur aldursflokkum:

  • A flokkur: Nemendur í framhaldsskóla (u.þ.b. 16-19 ára).

  • B flokkur: Nemendur í efstu tveimur bekkjum unglingastigs grunnskóla (u.þ.b. 14-16 ára).

3. Skráning

Kennarar liða, sem vilja taka þátt í Greindu betur, skrá lið sín til leiks á skráningasíðu Evrópsku tölfræðikeppninnar sem einnig er aðgengileg á www.greindubetur.is undir Skráning.

Skráningunni þurfa að fylgja allar upplýsingar sem óskað er eftir. Vakni frekari spurningar er hægt að senda tölvupóst á netfangið greindubetur@hagstofa.is.

Þátttakendur í undankeppninni þurfa að takast á við tvö verkefni og einungis þeir sem leysa bæði verkefnin komast í úrslit keppninnar.

Fyrra verkefnið er leyst á vefsíðu keppninnar og samanstendur af þremur tíu spurninga krossaprófum þar sem hver spurning hefur fjóra svarmöguleika. Aðeins einn svarmöguleiki er réttur af þessum fjórum. Síðara verkefnið felst í kynningu sem skilað er á pdf-sniði. Nemendur geta leyst bæði verkefnin þar sem þau eru stödd (í skóla eða heima) og því engin þörf á ferðalögum til þess að taka þátt í keppninni.

4. Verkefni

Forkeppni

Fyrsta próf: könnun á grunnþekkingu

Markmiðið er að svara tíu spurningum um grundvallarhugtök í tölfræði, um túlkun á myndritum og skilning á tölfræðilegum útreikningum.

Spurningar eru miðaðar við hæfniviðmið hvers aldursflokks.

Annað próf: próf í notkun opinberra hagtalna

Markmiðið er að svara tíu spurningum um opinberar hagtölur sem finna má á vefsíðu Hagstofu Íslands og annarra hagskýrsluaðila.

Þriðja próf: próf í túlkun upplýsinga úr útgefnum hagskýrslum

Markmiðið er svara tíu spurningum úr ritinu „Lýðfræði í Evrópu“ (e.“Demography in Europe”). Útgáfan er á ensku.

Úrslitakeppni

Kynning á tölfræðirannsókn

Verkefnið felst í því að liðin útbúa kynningu byggðar á útgefnum gögnum Hagtofu Íslands. Nauðsynlegt er að nota gögn frá Hagstofu Íslands, en einnig má nýta sér gögn sem útgefin eru af Evrópsku hagstofunni (Eurostat) til stuðnings. Liðin eiga að kjósa sér rannsóknarefni. Í því felst að liðin eiga að svara einfaldri rannsóknarspurningu á grundvelli opinberra hagtalna.

Liðin munu skila niðurstöðum sínum í PowerPoint-kynningu, eða með hliðstæðum hætti, sem á að skila á pdf-sniði.

Kynningin þarf að innhalda eftirfarandi kafla:

  • Markmið verkefnisins: Kynning á viðfangsefni og af hverju það er mikilvægt/áhugavert. Verkefnið þarf að innihalda rannsóknarspurningu sem hægt er að svara með tölulegum upplýsingum.

  • Aðferð greiningar: Lýsing á aðferð og tölfræðilegri úrvinnslu sem var notað til að svara rannsóknarspurningunni.

  • Niðurstöður greiningar: Lýsing á niðurstöðum greiningarvinnunnar ásamt töflum og myndritum. Niðurstöðurnar þurfa vekja athygli á þeim upplýsingum sem skipta mestu máli til að svara rannsóknarspurningunni.

  • Ályktanir út frá niðurstöðunum: Draga þarf niðurstöðurnar saman og keppendur þurfa að draga ályktanir um hvað niðurstöðurnar þýða. Komu niðurstöðurnar á óvart? Var rannsóknarspurningunni svarað fullnægjanlega?

  • Heimildaskrá: Verkefnið þarf að styðjast við heimildir því það verður að vera hægt fyrir lesandann að finna gögnin og efnið sem fjallað er um í verkefninu. Í verkefninu þurfa að vera tilvísanir sem vísar í heimildirnar í heimildasrkánnni. Í lok verkefnisins þarf að vera listi yfir þær heimildir sem stuðst er við og útgefnar hagtölur (vefhlekki). Vanti heimildaskrá er það metið til lækkunar.

Á fyrstu glæru kynningarinnar skal nafn liðs og skóla koma fram ásamt aldursflokki sem keppt er í. Heildarfjöldi glæra skal ekki fara yfir 16 (fyrsta glæran og heimildaskrá meðtalin). Skjalið skal vera merkt nafni liðs, vistað sem .pdf skjal, og skjalinu skal vera hlaðið upp á vefsíðu keppninnar áður en skilafrestur er liðinn.

Dómnefnd mun einungis meta prenthæfan hluta pdf-skjalsins. Óprentanlegir hlutar skjalsins, svo sem hreiðruð myndbönd og þess hátttar, teljast ekki til verkefnisins og munu ekki verða metnir.

Greining liða skal byggja á gögnum frá Hagstofu Íslands en verkefni sem byggja eingöngu á öðrum gögnum verða ekki tekin gild. Nota má útgefnar tölur frá Evrópsku hagstofunni til stuðnings.

Engin takmörk eru á því hvaða hugbúnað má nota til þess að greina gögn.

5. Matsviðmið

Forkeppni

Hvert þriggja prófa fyrri hluta keppninnar verður metið með tilliti til réttra, rangra og engra svara.

Eitt stig fæst fyrir rétt svar, dregið er 0,33 frá fyrir rangt svar og sé spurningu ekki svarað fæst ekkert stig. Hægt er að hámarki að fá tíu stig fyrir hvert af prófunum þremur.

Fyrri hluti keppninnar verður metinn með því að reikna meðaltal, námundað að einum aukastaf, af stigunum sem fengin eru úr hverju af prófunum þremur og margfalda niðurstöðuna síðan með tíu. Lokastig fyrir fyrri hlutann getur að hámarki orðið 100 stig. Röðun allra þátttökuliða verður ákveðin með þessum hætti. Í það minnsta helmingur liðanna dettur út eftir fyrri hluta.

Stigin sem lið fá í fyrri hlutanum ráða því hvort þau fá að takast á við seinni hluta keppninnar. Þá verða stigin í fyrri hlutanum notuð við útreikning á lokaeinkunn og vega þar 25%.

Mat á prófunum þremur úr fyrri hluta keppninnar og útreikningur á lokareinkunn fyrir fyrri hlutann verður framkvæmt af þar til gerðu forriti.

Úrslitakeppni

Miðað verður við eftirfarandi þætti við mat á verkefni í seinni hluta keppninnar.

  • Kynning verkefnisins (25%)

    • Kynningin er vel upp byggð með tilliti til mismunandi hluta verkefnisins.

    • Kynningin er skýr og auðvelt að lesa hana.

    • Vísað er til heimilda, stuðst við heimildaskrá og vefhlekkir notaðir fyrir útgefnar hagtölur.

    • Útlit kynningarinnar er snyrtilegt og grípur augað.

  • Markmið (15%)

    • Kynningin hefur skýrt markmið og önnur markmið kynningarinnar eru vel skilgreind.

    • Færð eru rök fyrir því hvers vegna áhugi var fyrir því að rannsaka viðfangsefnið.

    • Greining gagna er í samræmi við markmið rannsóknarinnar.

  • Greining upplýsinga (40%)

    • Aðferð og tölfræðileg úrvinnsla sem var notað til að svara rannsóknarspurningunni er lýst.

    • Vakin er athygli á þeim upplýsingum sem skipta mestu máli til að svara rannsóknarspurningunni.

    • Myndrit og töflur eiga vel við viðfangsefnið og hjálpa til við að komast að niðurstöðu og styðja við hana.

    • Útreikningar eru réttir.

    • Framkvæmd greiningar er í samræmi við menntunarstig liðsins.

  • Niðurstöður (20%)

    • Hvert markmið hefur sína niðurstöðu en einnig er um að ræða heildarniðurstöður.

    • Varað er við þeim takmörkunum sem niðurstöður greiningarinnar kunna að vera háðar (ef slíkar takmarkanir eru fyrir hendi).

    • Niðurstöður eru dregnar saman og keppendur draga ályktanir um hvað niðurstöðurnar þýða.

Dómnefndin mun velja fimm bestu verkefnin í hverjum flokki og geta þau fengið að hámarki 100 stig. Stig fyrir seinni hluta keppninnar vega 75% í útreikningi á lokaeinkunn.

6. Verðlaun

Sigurliðið er það lið sem fær hæstu einkunn í hverjum aldursflokki. Hin fjögur liðin úr hverjum flokki komast í úrslit í sínum flokkum.

Þrjú fyrstu liðin í báðum aldursflokkum fá viðurkenningarskjal og peningaverðlaun.

  1. Liðið í fyrsta sæti í báðum flokkum fær 90 000 ISK

  2. Liðið í öðru sæti í báðum flokkum fær 60 000 ISK

  3. Liðið í þriðja sæti í báðum flokkum fær 30 000 ISK

Að auki getur dómnefnd veitt hvaða liði sem er viðurkenningu.

Kennari sigurliðs í hvorum aldursflokki fær gjafabréf í verðlaun að andvirði 50 000 ISK.

Hafi kennari umsjón með tveimur sigurliðum fær hann einungis ein verðlaun.

7. Dómnefnd

Dómnefndin í undankeppninni samanstendur af fimm (5) dómurum:

  • Tveir dómarar koma frá Hagstofu Íslands.

  • Þrír dómarar eru fagaðilar í tölfræði og fjölmiðlun.

Ákvörðun dómnefndar er endanleg.

Dómnefnd getur ákveðið að veita ekki verðlaun.

8. Verðlaunaafhending og miðlun ákvörðunar dómnefndar

Sigurvegara keppninnar, og þeim sem komust í úrslit, verður tilkynnt um ákvörðun dómnefndar með tölvupósti.

Ákvörðunin verður enn fremur birt á www.greindubetur.is á fyrirfram ákveðnum degi. Skipuleggjendur keppninnar munu ákveða í samráði við sigurliðið hvenær verðlaunaafhending fer fram.

9. Tímaáætlun

  • Skráningartímabil: frá 13. nóvember 2024 til 13. janúar 2025

  • Tímabil forkeppninnar: frá 20. janúar 2025 til 9. febrúar 2025

  • Úrslit forkeppninnar kynnt: 12. febrúar 2025

  • Tímabil úrslitakeppninnar: 17. febrúar 2025 til 9. mars 2025

  • Úrslit úrslitakeppninnar kynnt: 26. mars 2025

Athugið að Hagstofa Íslands áskilur sér allan rétt til þess að breyta dagsetningum sem fram koma í tímaáætluninni og jafnvel fella þær niður, ef þess gerist þörf. Greint verður frá öllum slíkum breytingum á vefsíðu keppinnar

10. Birting á kynningum

Greint verður frá þeim kynningum úr seinni hluta keppninnar sem hljóta verðlaun eða viðurkenningar á www.greindubetur.is þar sem fram koma nöfn liðanna, frá hvaða skóla þau koma og flokki þeirra. Með þátttöku í keppninni er gert ráð fyrir að þátttakendur leyfi birtingu verkefna sinna. Öllu efni sem kynnt verður í undankeppninni verður haldið eftir af Hagstofu Íslands.

11. Evrópukeppnin

Sigurliðið, og þau lið sem komast í úrslit með hæstu einkunn í hverjum flokki, getur tekið þátt í evrópuhluta Evrópsku tölfræðikeppninnar. Hagstofa Íslands mun hafa samband við liðin og upplýsa þau um framhaldið.

Dómnefndin mun í því skyni setja saman lista með að hámarki fimm liðum í hverjum flokki sem raðað er eftir hæstu einkunn í undankeppninni. Liðið með hæstu einkunnina í hverjum flokki er sigurvegarinn og hin fjögur liðin eru í úrslitum. Komi til þess að eitthvert lið geti ekki tekið þátt í evrópuhlutanum eða afþakki það verður haft samband við næsta lið á listanum.

Tímaáætlun Evrópuhlutans - endurbirt af heimasíðu evrópsku tölfræðikeppninnar

  • Efni verkefnis í evrópuhlutanum tilkynnt: Í desember 2024

  • Frestur til þess að skila inn myndbandi í evrópuhlutann: 7. maí 2025

  • Tilkynning um sigurlið evrópuhlutans: 6. júní 2025

  • Verðlaunaafhending evrópuhlutans: 25 - 27. júní 2025

12. Áskilin réttindi

Hagstofa Íslands áskilur sér allan rétt til þess að breyta skilmálum og skilyrðum fyrir undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar 2025, einkum dagsetningum sem fram koma í tímaáætluninni og jafnvel fella þær niður, ef þess gerist þörf. Greint verður frá öllum slíkum breytingum á vefsíðu keppinnar – www.greindubetur.is.

13. Samþykki

Með þátttöku í undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar er gert ráð fyrir því að þátttakendur hafi kynnt sér reglur keppninnar og séu þeim samþykkir.