1. Hvað eru hagtölur?

Hagtölur eru tölur sem hjálpa okkur að vita hvernig lífið er á Íslandi. Þetta þýðir að það eru til dæmis til hagtölur um hvað það búa margir á Íslandi, hvort þetta fólk sé ríkt eða fátækt, hversu margir fara í skóla og hvernig náttúran er á Íslandi.

Hagtölur gefa stjórnvöldum mikilvægar upplýsingar um fólkið í landinu og umhverfi þess sem þau nota til þess að taka ákvarðanir og stýra landinu. Ef stjórnvöld sjá til dæmis á tölunum að það verði óvenjulega mörg börn í 1. bekk á Íslandi árið 2025 geta þau tekið þá ákvörðun að fjölga kennurum í grunnskólum til þess að kenna öllum þessum börnum.

Tölurnar getur fólkið í landinu líka notað til þess að vita hvort stjórnvöld séu að gera það sem þau segjast ætla að gera. Ef stjórnvöld segjast ætla að fjölga kennurum í grunnskólum þá er hægt að sjá á tölunum um fjölda kennara hvort það raunverulega gerist.

Fólkið í landinu getur líka notað tölurnar til þess að vita hvort eitthvað sé satt, - eða að minnsta kosti fengið vísbendingu um það. Ef að vinur manns segir manni til dæmis að það séu miklu fleiri kindur á Íslandi en mannfólk er hægt að bera saman tölur um kindur og fólk til þess að vita hvort það sé raunverulega satt*.

angry_sheep.jpg

*Það er satt! Það er meira sauðfé á Íslandi en mannfólk. Við eigum ekki séns ef að þessar rollur ákveða að ráðast á okkur.

Next
Next

2. Hvaðan koma tölurnar?