5. Hverjir búa til tölurnar?

Við sem vinnum á Hagstofunni komum úr ýmsum áttum. Sum okkar eru með bakgrunn úr hagfræði og viðskiptafræði. Önnur eru með bakgrunn úr tölfræði, stærðfræði, verkfræði, eðlisfræði, líffræði, landfræði, umhverfisfræði, kerfisfræði og tölvunarfræði. Enn önnur með bakgrunn úr félagsfræði, sálfræði og stjórnmálafræði*. Við erum því fjölbreyttur hópur af öllum kynjum og frá ýmsum löndum, sem eigum það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á tölum og tölfræði og samfélaginu sem við búum í.

Hlutverk okkar er að miðla talnaefni um samfélagið okkar þannig að það nýtist ólíkum hópum bæði til þess að styðja við ákvarðanatöku en ekki síður til þess að upplýsa almenning um stöðu samfélagins.

Á Hagstofunni störfum við eftir ákveðnum siðareglum um gerð hagtalna og öll erum við bundin trúnaði um þau gögn sem við vinnum með. Allir geta treyst því að þær upplýsingar sem Hagstofan safnar séu ekki notaðar í öðrum tilgangi en þeim að búa til hagtölur.

*Og þetta er ekki einu sinni tæmandi upptalning!

Previous
Previous

4. Hvers vegna eru allar þessar tölur búnar til?

Next
Next

6. Hvað eru vísitölur?