6. Hvað eru vísitölur?

Vísitala mælir breytingu í prósentum. Þetta þýðir að hægt er að búa til vísitölu úr hvaða breytingum sem er. Þá er byrjunarpunktur vísitölunnar settur á 100 á ákveðnum tíma, sem kallaður er viðmiðunartími. Prósentubreytingar eru svo reiknaðar fyrir hvert tímabil miðað við þennan byrjunarpunkt og vísitalan hækkuð eða lækkuð í samræmi við þær.

Þetta getur verið nytsamlegt þegar bera á saman breytingar með ólíkum mælikvörðum til dæmis þegar við berum saman fjölda og magn af einhverju. Á myndinni má sjá hvernig úrgangur hefur aukist um 130% frá árinu 2009 á meðan fólki á Íslandi fjölgaði bara  um 12%.

Vístölurnar hér að ofan eru dæmi um magnvísitölur. Þær mæla í rauninni breytingu á magni af einhverju í prósentum- til dæmis fólki eða rusli. Margar af þeim vísitölum sem eru mest notaðar eru hins vegar verðvísitölur. Þær mæla breytingu á verði einhverrar vöru eða þjónustu. Þannig mælir vísitala neysluverðs breytingar í verði á vörum og þjónustu sem heimilin kaupa til dæmis matvöru, fötum, rafmagni og bensíni. Þetta þýðir að vísitala neysluverðs er í raun samsett úr prósentubreytingum á mörgum vörum og þjónustum sem fólk kaupir til þess að reka venjulegt heimili.

Þegar verðvísitala er búin til er samt mikilvægt að passa upp á varan eða þjónustan sem er verðmæld sé alltaf sú sama milli mælinga. Þannig er hægt að tryggja að verð á eplum árið 2020 sé borin saman við verð á eplum 2021, en ekki við verð á vetrardekkjum. Þannig má segja að vísitala neysluverð gefi einfaldaða mynd af flóknu samspili verðs á ýmsum vörum og þjónustu sem fólk kaupir fyrir heimilin sín.

Ákvörðun um hvað er mælt er meðal annars byggð á rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna*. Í henni skrá heimili öll útgjöld sín í tvær vikur og veita að auki upplýsingar um stærri útgjöld á árinu svo sem kaup á bílum og ferðalögum. Í framhaldinu er grunnur vísitölunnar búinn til. Grunnurinn er þá þær vörur og þjónustur sem venjulegt heimili kaupir á þessum tíma. Í heimi þar sem allt væri alltaf eins þyrfti aldrei að breyta grunni vísitölunnar því að engar breytingar yrðu á því hvað fólk er að kaupa. Raunveruleikinn er þó sem betur fer annar og fjölbreyttari. Þannig keyptu heimilin til dæmis tónlist á vínilplötum í plötubúðum á áttunda áratugnum, en í dag kaupa heimilin mest af tónlist í gegnum streymisveitur yfir netið. Þess vegna er grunnur vísitölu neysluverðs uppfærður reglulega til að endurspegla sem best veruleikann hverju sinni.

Til þess að komast að því hvað vörur og þjónusta í grunni vísitölunnar raunverulega kostar safnar starfsfólk Hagstofunnar upplýsingum um verð fyrir vísitölu neysluverðs frá verslunum og fyrirtækjum um söluverð á þessum vörum og þjónustum.

En af hverju er mikilvægt að búa til vísitölur? Þetta hljómar allt eins og frekar mikið vesen. Vísitölur eru mikilvægar vegna þess að með þeim er hægt að bera saman mismunandi breytingar eins og í dæminu hér að ofan. Þær má líka nota til að bera saman breytingar á milli landa. Þær eru líka stundum notaðar til verðtryggingar. Tilgangur verðtryggingar er að tryggja að upphæð sem einhver fær lánaða í dag sé jafn mikils virði og þegar hún er greidd til baka, jafnvel þó að langur tími líði. Ef það var hægt að kaupa kassa af eplum fyrir upphæðina í dag, þá á að vera hægt að kaupa kassa af eplum fyrir upphæðina þegar hún er greidd til baka. Hagstofan tekur ekki ákvörðun um verðtryggingar. Hún reiknar bara vísitölur sem nota má til verðtryggingar en ákvörðun um verðtryggingu er tekin hjá stjórnvöldum eða hjá þeim sem gera samninga þar sem peningar eru verðtryggðir.

*Fyrsti grunnur vísitölu neysluverðs var heimilisbókhald þáverandi Hagstofustjóra. Hann hefur talið að heimilið sitt væri dæmigert heimili á Íslandi á þessum tíma.

Previous
Previous

5. Hverjir búa til tölurnar?

Next
Next

7. Verðbólga - hvað er nú það?