2. Hvaðan koma tölurnar?

Hagtölur sem Hagstofan birtir koma úr gögnum sem hún fær frá fólkinu í landinu og frá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Hagstofan má safna þessum gögnum vegna þess að það eru til sérstök lög um Hagstofuna sem gefa henni leyfi til þess.

Þetta þýðir að öll fyrirtæki og stofnanir á Íslandi þurfa að láta Hagstofuna hafa gögn ef hún biður um það. Ef að Hagstofan biður til dæmis eitthvað fyrirtæki út í bæ að segja sér hversu margir vinna hjá því er það skylda fyrirtækisins samkvæmt þessum lögum að láta Hagstofuna hafa upplýsingarnar. Með þessum upplýsingum getur svo Hagstofan til dæmis reiknað hversu margir vinna við að byggja hús á Íslandi.

Hagstofan má líka hringja í fólkið í landinu og spyrja það spurninga. Þótt fólkið þurfi ekkert að svara spurningum Hagstofunnar skiptir máli að það svari vegna þess að annars er ekki hægt að búa til mikilvægar tölur. Til dæmis hringir Hagstofan í hverri viku í hóp af fólki sem býr á Íslandi til að spyrja hvort það sé með vinnu. Ef það er ekki með vinnu spyr Hagstofan hvort það sé að leita sér að vinnu*. Með þessum upplýsingum getur Hagstofan reiknað út hversu marga vantar vinnu á Íslandi.

Mikið af gögnum sem Hagstofan notar til að búa til hagtölur kemur samt frá öðrum stofnunum. Til dæmis koma upplýsingar um hversu margir búa á Íslandi frá Þjóðskrá okkar Íslendinga. Allir sem fæðast á Íslandi eru skráðir í Þjóðskrá og það eru líka allir sem flytja til Íslands frá útlöndum. Hagstofan fær þessar upplýsingar og notar þær til þess að búa til tölur en líka til þess vita í hvaða fólk hún á að hringja til að spyrja spurninga. Hagstofan hringir til dæmis ekki í fólk sem Þjóðskrá segir að búi í útlöndum til þess að spyrja það spurninga.

debate.jpg

*…og svo skellir Hagstofan á! (Djók - nei…hún spyr að svona 50 spurningum í viðbót).

Previous
Previous

1. Hvað eru hagtölur?

Next
Next

3. Hvernig eru tölurnar búnar til?