8. Sjö leiðir til að skerpa gagnalæsi! 

 

Sjö ráð til að staðreyndaprófa tölulegar upplýsingar 

 1. Hvaðan koma upplýsingarnar? 

Leggjum sjálfstætt mat á hvað tölulegu upplýsingarnar eru að segja okkur. 

Þegar við lesum frétt eða innlegg á samfélagsmiðli þar sem fjallað er um tölulegar upplýsingar og gögn er gott að íhuga hvaðan upplýsingarnar koma og hvort upplýsingarnar eru rétt túlkaðar í fréttinni eða innlegginu. Ef við vitum hvaðan upplýsingarnar koma og í hvaða samhengi þær urðu til þá getum við metið áreiðanleika þeirra á gagnrýnan hátt. Þannig fæst betri sýn á umfjöllunarefnið. 

Oft hjálpar að aðskilja upplýsingarnar frá umfjölluninni sem þær birtast í því stundum getur orðnotkun í fréttatexta eða innleggi verið leiðandi. Til að mynda þegar fjallað er um mun milli tveggja hópa, sem jafnvel er sáralítill, þá er hægt að ýkja muninn með notkun lýsingarorða og skrifa að munurinn hafi verið verulegur, töluverður eða nokkur. Með því að skoða frumheimild upplýsinganna án fréttatextans, þá er hægt að leggja mat á áreiðanleika upplýsinganna og kanna hvort umfjöllunin hafi verið villandi eða leiðandi. Annað svona dæmi væri þegar fjölmiðlar tala um að meirihluti aðhyllist valmöguleika A (51%) en ekki valmöguleika B (49%), þegar munurinn er ekki mikill og í rauninni bara 2%.  

Hér er líka gott að kanna aldur upplýsinganna og hvort nýrri upplýsingar séu til staðar og gefi réttmætari mynd af umfjöllunarefninu. 

„Leggjum sjálfstætt mat á hvað tölulegu upplýsingarnar eru að segja okkur“

 

2. HVER ER SPURNINGIN?

Spyrjum okkur alltaf hver spurningin sé. Er hægt að svara henni með tölulegum upplýsingum?

Sumar spurningar eru gildishlaðnar og ekki hægt að svara henni með gögnum. Til dæmis er ekki hægt að svara því með tölulegum upplýsingum hvort eitthvað sé orðið of mikið eða of lítið vegna þess að skilgreiningar okkar á hvað er of mikið eða of lítið er einstaklingsbundið og því eru spurningarnar gildishlaðnar. Tölur eru ekki gildishlaðnar og geta ekki veitt svör við gildishlöðnum spurningum.

Hins vegar er vel hægt að svara því með tölum hvort eitthvað hafi aukist eða minnkað, eða hvort það sé munur (til dæmis milli hópa) sé til staðar. Þannig er til dæmis ekki hægt að svara því með tölum hvort fjöldi bíla á Íslandi sé orðin of mikill, bara hvað þeir eru margir og hvort fjöldi þeirra hafi minnkað eða aukist. Til þess að svara því hvort fjöldinn sé orðinn of mikill þarf að leggja eitthvað viðmið til grundvallar. Þetta viðmið byggist oft á hugmynd okkar um hvernig lífið eigi að vera sem oft er gildishlaðin.

Til dæmis gætum við álitið að æskilegur fjöldi bíla á Íslandi ætti að vera 1 bíll á hverja 4, eða 25 bílar á hverja 100, vegna þess að okkur finnst að dæmigerð fjölskylda (tveir fullorðnir og tvö börn) ætti að eiga einn bíl. En af hverju okkur finnst það, er háð gildismati okkar. Þannig finnst einum einn bíll hæfilegur fjöldi bíla á fjölskyldu á meðan öðrum finnst að þeir eigi að vera tveir. 

„Þannig finnst einum

einn bíll hæfilegur fjöldi

bíla

á fjölskyldu á meðan

öðrum finnst að þeir eigi

að vera

tveir“

 

3. FJÖLDI EÐA HLUTFALL?

Spyrjum okkur hvort umfjöllunin eigi við um fjölda eða hlutföll. 

Fjöldi og hlutföll gefa mismunandi sjónarhorn á tiltekið málefni og túlkast því á ólíkan hátt. Fjöldi er talning á einhverju án samhengis á meðan hlutföll segja til um stærð miðað við eitthvað fyrirfram ákveðið samhengi. Stundum getur fjöldatalan aukist en hlutfallið þó lækkað eins og sjá má í eftirfarandi dæmum. 

Árið 2020 var fjöldi umferðalagabrota á höfuðborgarsvæðinu 55,809 talsins og tveimur árum seinna var fjöldinn orðinn 58,738 alls. Hafa umferðalagabrot aukist á höfuðborgarsvæðinu? Þegar hlutfallið er skoðað sér maður að árið 2020 var hlutfall umferðarlagabrota af öllum umferðarlagabrotum 55% en þetta hlutfall var komið niður í 39% árið 2022. Hér hefur fjöldinn aukist en hlutfallið lækkað. Þetta þýðir að þó fjöldi brota á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist á milli ára þá hefur hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu lækkað vegna þess að heildarfjöldi umferðalagabrota á öllu landinu hefur aukist, og að þessi aukning var meiri utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. Að setja talningu í samhengi gefur okkur þannig meiri upplýsingar en bara það að telja umferðarlagabrot.  

Athugið líka að hlutfall getur breyst bara vegna þess að það sem miðað er við breytist mjög mikið. Dæmi um þetta er þótt fjöldi karla sem sækja háskólanám hafi aukist lítillega frá árinu 2000 hefur hlutfall þeirra lækkað verulega bara vegna þess að heildarfjöldi allra sem sækja háskólanám hefur aukist. Ef maður skoðar kynjaskiptingu háskólanema sér maður að þeim hefur fjölgað sem sækja háskólanám vegna þess að konum í háskólanámi hefur fjölgað mjög mikið en körlum í háskólanámi hefur ekki fjölgað jafn mikið og konum (þó þeim hafi fjölgað aðeins). 

Heimildir: Ríkislögreglustjóri, Hagstofan

 

„Leggjum sjálfstætt mat á hvað tölulegu upplýsingarnar eru að segja okkur“

 

4. HVAÐ ER VERIÐ AÐ BERA SAMAN?

Höfum alltaf í huga hvað er verið að bera saman og hvort það sé í rauninni sambærilegt. 

Til að vita hvort eitthvað hafi aukist eða minnkað þá þarf alltaf eitthvað viðmið til að bera saman við.  

Það er ekki hægt að segja að kjörsókn ungs fólks sé lág vegna þess að 60% kjörsókn ungs fólks er minni en 100% kjörsókn sama hóps. Til að vita hvort að kjörsókn ungs fólks sé raunverulega lág þá er hægt að bera saman kjörsókn ungs fólks við annan aldurshóp til að sjá hvort kjörsókn ungs fólks sé lægri eða hærri en kjörsókn annars aldurshóps, t.d. eldra fólks. Ef við viljum vita hvort að kjörsókn ungs fólks hafi lækkað eða aukist, þá þarf að bera saman kjörsókn hópsins við samskonar aldurshóp frá fyrri kosningum.  

„Til að vita hvort eitthvað hafi aukist eða minnkað þá þarf alltaf eitthvað viðmið til að bera saman við“

 

5. HVER ER SKILGREININGIN OG HVER ER STAÐHÆFINGIN?

Spyrjum okkur hvort það sé hægt að mæla fyrirbærið sem við viljum vita eitthvað um.

Ef það er hægt þurfum við að hafa það á hreinu hvað við erum nákvæmlega að mæla og hvernig. Hér skiptir skilgreiningin á fyrirbærinu mjög miklu máli. Þannig getur skilgreiningin sjálf stýrt því sem tölurnar segja okkur.

Dæmi um þetta er þegar við viljum telja innflytjendur. Fyrst þurfum við að spyrja okkur hvað er að vera innflytjandi. Er til dæmis sá innflytjandi sem er fæddur á Íslandi en á erlenda móður og íslenskan föður? Eða er sá innflytjandi sem er fæddur á Íslandi en á bæði erlenda móður og erlendan föður? Hvað með þá sem eru fæddir erlendis en eiga íslenska foreldra? Eða eru kannski bara þeir innflytjendur sem eru fæddir erlendis og eiga erlenda foreldra? Innflytjendur geta fengið íslenskt ríkisfang á meðan sumir innflytjendur sem búa á Íslandi halda sínu fyrra ríkisfangi (til dæmis Pólverji sem kemur til Íslands að vinna og búa). Því getur verið eðlilegt að gera greinamun á þeim sem eru með íslenskt ríkisfang og eru innflytjendur.

Hagstofan skilgreinir innflytjanda sem einhvern sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis, á meðan Evrópska hagstofan (e. Eurostat) skilgreinir innflytjenda sem hvern þann sem býr í ár eða meira í einu landi eftir að hafa búið ár eða meira í öðru landi áður.

En hér er ekkert eitt rétt, það verður alltaf að miða skilgreininguna á því sem verið er að mæla við spurninguna sem verið að spyrja. Mikilvægast í þessu er auðvitað að greina alltaf frá því hvaða skilgreiningu er verið að miða við í mælingunni.  

Heimild: Hagstofan, Eurostat

„Þannig getur skilgreiningin sjálf stýrt því sem tölurnar segja okkur“

 

6. GEFA TÖLURNAR ENDANLEGT SVAR?

Höfum alltaf í huga hvernig tölur eru túlkaðar. Hér getur gildismat okkar skipt máli (sjá líka punkt 2 og 7)

Stundum er meira gert úr mun en raunverulega er til staðar. Til að mynda ef könnun leiðir í ljós að 51% hóps elski jarðaber á meðan 49% af hópnum elski bláber, - er þá hægt að fullyrða að meirihlutinn elski jarðaber vegna þess að 51% er meira en 49%? Hlutföllin eru ansi nálægt helmingnum (50%) og það munar ekki nema 2% á milli hópanna. Réttara væri að segja að hópurinn væri klofinn í skoðunum sínum hvort þeim þykir jarðaber eða bláber bragðbetri.  

„Höfum alltaf í huga hvernig tölur eru túlkaðar“

 

7. FÓLK SEM NOTAR TÖLUR ER MANNLEGT!

Mundu að oft er umfjöllun tölulegra upplýsinga í fjölmiðlum og rannsóknum gildishlaðin. 

Það hvort að þér finnist 5% íbúa sem búa við fátækt sé lítið eða mikið fer eftir gildismatinu þínu. Þetta þýðir ekki að við eigum ekki að beita gildismati við túlkun tölulegra gagna, eða að slíkt sé rangt. Þegar öllu er á botninn hvolft eiga tölur að hjálpa okkur við að draga ályktanir og grípa til aðgerða. Tölur geta líka haft áhrif á gildismat okkar. Eitt dæmi um þetta er hvernig tölulegar upplýsingar um áfengisneyslu unglinga höfðu áhrif á afstöðu fólks til hennar.  

Í gamla daga þótti ekkert sérstakt tiltökumál þótt unglingar drykkju áfengi. Unglingar söfnuðu saman í miðbæ Reykjavíkur til að drekka. Árið 1995 sögðust 80% allra nemenda í 10.bekk hafa drukkið áfengi. Fólki þótti þetta hlutfall mjög hátt og það var ákveðið að grípa til aðgerða (segja foreldrum að fylgjast betur með börnunum sínum og senda þau íþróttir). Þessar aðgerðir virðast hafa borið árangur vegna þess að árið 2023 sögðust 26% nemenda í 10.bekk hafa bragðað áfengi. Á sama tíma gæti einhver sagt að unglingadrykkja árið 2023 sé samt alltof mikil. Einhver gæti bent á að þetta þýðir að um 1000 börn í árgangi hafa bragðað áfengi, tölurnar tala sínu máli! Eitthvað þarf að gera! En hér er alveg ljóst að viðkomandi álítur að áfengi sé skaðlegt börnum og vill hafa áhrif á þær aðgerðir til að draga úr unglingadrykkju, sem segja má að lýsi breyttu viðhorfi til unglingadrykkju miðað við það sem var einu sinni á Íslandi.  

Heimild: Íslenska æskulýðsrannsóknin

„Þegar öllu er á botninn hvolft eiga tölur að hjálpa okkur við að draga ályktanir og grípa til aðgerða.“

 
 
Previous
Previous

7. Verðbólga - hvað er nú það?